65.000 kr. til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna
Þriðjudaginn 28. mars var sérstök styrktarsýning á söngleiknum Vertu þú sjálfur sem nemendur af unglingastigi hafa sýnt á sal skólans að undanförnu. Leikarahópurinn sjálfur lagði það til við leikstjórana sína að láta ágóðann af aukasýningu renna til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. Ágóði sýningarinnar var hvorki meira né minna en 65.000 kr. og var hann afhentur fulltrúa SKB, Kristínu Njálsdóttur, strax að sýningu lokinni. Krakkarnir voru að vonum glaðir og ákaflega stoltir af þessu góða framtaki sínu. Þeir eiga sannarlega hrós skilið og skólinn er þeim og leikstjórum þeirra afar þakklátur fyrir vandaðar og skemmtilegar leiksýningar.