3. apríl 2013

Almennar sýningar á leikritinu „Í sambandi"

Leikritið Í sambandi  hlaut frábærar viðtökur viðstaddra þegar það var frumsýnt á árshátíð unglingastigs þann 20. mars sl. Leikritið kallast á frummálinu Connected og er eftir Don Zolidis en það var þýtt og staðfært auk þess sem dansi og söng var komið fyrir í handritinu. Það fjallar um þau óskráðu lög og reglur sem gilda þegar hefja á leitina að kærasta eða kærustu. Unglingsstrákur og stelpa eru leidd í allan sannleikann um það hvað EKKI eigi að gera þegar glímt er við verkefni af því tagi. Ráðgjafar kenna þeim t.d. að blanda ekki foreldrum í slík verkefni og þau upplýst um ,,vinahættuna” ógurlegu. Tilfinninganæmi drengja og hreinskilni stúlkna eru auk þess ekki talin af hinu góða. Ráðleggingar þessar duga þó skammt enda fylgir ekki sögunni hvað EIGI að gera í þessum málum.

Það er kraftmikill hópur nemenda úr 8.-10. bekk sem fara á kostum í leik, söng og dansi en leikstjórn er í höndum Bryndísar Jónu Magnúsdóttur, Guðnýjar Kristjánsdóttur og Maríu Óladóttur.

Almennar sýningar á þessu bráðskemmtilega leikriti verða á sal skólans sem hér segir: 

 

Föstudagur 5. apríl     kl. 20.00

Mánudagur 8. apríl     kl. 20.00

Þriðjudag   9. apríl      kl. 20.00

 

Miðaverð fyrir nemendur skólans er 500 kr en 1000 kr fyrir aðra gesti. Sýningin stendur yfir í tæpa klukkustund. Allir áhugasamir eru hvattir til þess að koma og leyfa þessum hæfileikaríku krökkum að kitla hláturtaugarnar.

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan