17. mars 2017

Flakkað um tímann á árshátíðum

Árshátíðirnar okkar þrjár fóru fram á sal skólans í dag. Yfirskrift þeirra var TÍMAVÉLIN og gerðu átta nemendur í 5. og 6. bekk sér lítið fyrir og hönnuðu tímavél sem setti flottan svip á sviðið. Nemendur flökkuðu svo um tímann í atriðum sínum sem voru í anda ákveðins áratugs. 

Sannkölluð söngveisla var á árshátíð yngsta stigs. Fjölmennur hópur nemenda í 1. bekk þreytti frumraun sína í sviðsframkomu á árshátíð og stóðust þeir svo sannarlega prófið. Þeir sungu þrjú íslensk dægurlög frá árunum 2010 til dagsins í dag. Þaulæfðir nemendur í 2. bekk sýndu gestum því næst hvað þeir hafa lært í forskólanum hjá Sigrúnu Gróu í blokkflautuleik og svo sungu þeir af mikilli snilld Eniga meniga og Lagið um það sem er bannað frá árunum 1970-1980. Því næst stigu krakkarnir úr 3. bekk á svið en þeir sungu þekkt barnalög sem Ómar Ragnarsson söng af snilld á 7. áratugnum. 4. bekkur steig síðastur á stokk og boðaði frið að hætti Johns nokkurs Lennons með friðarmerki um hálsinn. Kynnar hátíðarinnar voru þær Hrönn Herborg Benonýsdóttir og Sólrún Lilja Bragadóttir.

Á miðstigi mættu þrautreyndir sviðslistamenn til leiks. Fimmti bekkur reið á vaðið með skemmtilegt atriði úr gömlu íslensku baðstofunni. Krakkarnir í 6. bekk ferðuðust aftur í tímann og til Englands þar sem Oliver Twist bað um meiri mat og endaði svo í fóstri hjá heldri manni. Síðastur á svið var fjölmennur árgangur 7. bekkinga en þeir skautuðu yfir 9. áratuginn með nokkrum vel völdum popp- og rokksmellum. Hugmyndina og handritið átti Logi Þór Ágústsson en hann var kynnir ásamt Alexander Aroni Smárasyni.

Söngleikurinn Vertu þú sjálfur var frumsýndur á árshátíð unglingastigs. Er hann byggður á kvikmyndinni Can´t Buy Me Love. María Óladóttir annaðist handritsgerðina en hún leikstýrði einnig verkinu ásamt Guðnýju Kristjánsdóttur. Samvinna þeirra tveggja í verkefni sem þessu á sér orðið langa sögu í okkar ágæta skóla. Frumsýningin heppnaðist prýðisvel og eiga leikarar og aðrir þátttakendur í þessu frábæra verkefni mikið hrós skilið. Hæfileikar nemenda leyndu sé ekki og boðskapur söngleiksins var sérstaklega góður. Í næstu viku verða opnar kvöldsýningar sem auglýstar eru hér á heimasíðunni.

Foreldrum og öðrum gestum færum við okkar bestu þakkir fyrir frábæra mætingu. Á yngsta og miðstigi var gestum boðið upp á kaffi og kleinur en á unglingastigi var haldið í hefðina og riggað upp kaffihlaðborði með veitingum sem nemendur höfðu með að heiman. Foreldrum unglinganna okkar þökkum við fyrir veitingarnar. Þakkir fær einnig allt starfsfólk skólans en á dögum sem þessum leggjast allir á eitt við að láta allt ganga sem best.    

Fleiri myndir má sjá í myndasafni.

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan