19. mars 2018

Gleði og gaman á árshátíð Heiðarskóla 2018

Árshátíðirnar okkar þrjár fóru fram á föstudaginn síðasta. Þema þeirra var þetta árið frjálst og voru atriðin því fjölbreytt. Á árshátíð 1. - 3. bekkjar voru söngvar sungnir, vísur kveðnar og forskólalög spiluð á flautur. 1. bekkingar þreyttu frumraun sína á sviði og stóðust þá áskorun með glæsibrag með lögum um veðrið. 2. bekkur sýndi hvað í honum býr með kröftugum söng og vönduðu forskólaflautuspili undir stjórn Sigrúnar Gróu. Þriðji bekkur söng loks lög úr Mary Poppins og fór með nokkrar heilræðavísur Hallgríms Péturssonar. Kynnar á árshátíð yngsta stigs voru þau Benedikt Bóas og Vigdís Birta.

 

Á miðstigi mættu reynslumiklir sviðslistamenn til leiks. 4. bekkur hóf hátíðina með söng og kvæðum sem flutt voru á Litlu upplestrarhátíðinni auk þess sem Kúst og fæó var sungið með miklum glæsibrag. 5. bekkirnir komu fram í sitt hvoru lagi, 5. LA með frumsamið Jumanji leikrit og 5. KK sýndi brot úr Dýrunum í Hálsaskógi. Nemendur í 6. bekk sýndu sínar allra bestu hliðar í leik og söng með stuttri útgáfu af söngleiknum Annie. Loks komu 7. bekkirnir fram í sitt hvoru lagi, 7. ÁG með leikþátt byggðan á teiknimyndinni Skrímsli HF og 7. SB með frumsamið leikrit um áhugamál og valgreinar. Kynnar á miðstigs árshátíðinni voru þau Aldís Nanna, Helgi Thor og Júlía Rún.

Eftir hádegi var svo komið að unglingunum. Var þá leikritið Pinnar og púkar frumsýnt en María Óladóttir hafði unnið handrit sem byggt er á teiknimyndinni Trolls. Auk Maríu annaðist Guðný Kristjánsdóttir leikstjórn. Það er skemmst frá því að segja að unglingarnir stóðu sig frábærlega vel og vakti leikritið og frammistaða þeirra mikla lukku. Stóran part af leikmyndinni höfðu nemendur í leikmyndavali unnið með aðstoð Gróu smíðakennara og komu munirnir afar vel út á sviði. Búningarnir settu skemmtilegan svip á verkið. Eftir páskafrí fara fram opnar kvöldsýningar á verkinu og verða þær auglýstar síðar.

Starfsfólk og nemendur hafa lagt mikla vinnu í það að undirbúa árshátíðardaginn og gera hann sem glæsilegastan. Eiga þeir skilið bestu þakkir fyrir þeirra framlag. Skólinn var fagurlega skreyttur marglitum pappírsblómum af öllum stærðum og gerðum og á skreytingateymi starfsmanna heiðurinn af undirbúningi, framkvæmd og uppsetningu þeirra. Guðmundur Hermannsson annaðist píanóleik í mörgum atriðum og á hann skilið þakkir fyrir það. Síðast en ekki síst ber að nefna foreldra og aðra gesti. Við færum þeim okkar bestu þakkir frábæra mætingu.

Fleiri myndir má sjá hér.

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan