30. nóvember 2015

Jólaandanum hleypt inn í Heiðarskóla

Föstudaginn 27. nóvember fékk sköpunargleði nemenda að njóta sín í jólaföndri og stofuskreytingum. Nemendur í 1.-6. bekk undu syngjandi glaðir við ýmis konar jólaverkefni og í 7.-10. bekk fór stofuskreytingakeppni fram í annað sinn. Var hún ekki síður metnaðarfull í ár en í fyrra. Nemendur fengu fjórar kennslustundir til að setja skólastofur sínar í jólabúning og eftir að þeir höfðu yfirgefið skólann kl. 11.10 hóf leynileg 6 manna dómnefnd störf. Úrslitin í þessari hnífjöfnu keppni voru svo tilkynnt eftir hádegi í dag, mánudaginn 30. nóvember en skreytingameistarar verðlaunastofunnar fengu skúffuköku að launum. 9.ÍS átti í ár stigahæstu skólastofuna, stofu 18, en þema hennar var aðfangadagskvöld. Það sem dómnefnd þótti sérstaklega eftirtektarvert í skreytingum stofunnar var góð nýting á efni og endurnýting.

Dagurinn var einnig nýttur til að baka piparkökur fyrir næstu viku en þá verður öllum nemendum boðið upp á súkkulaði og piparkökur á sal.

Myndir af skólajólalífinu þennan skerta dag má sjá í myndasafni.

Sigurvegarar stofuskreytingakeppninnar, 9.ÍS

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan