Kveðjustund fyrir Gunnar
Í dag var kveðjustund fyrir Gunnar haldin í íþróttasal skólans þar sem honum var þakkað fyrir frábær störf, samstarf og vináttu. Sóley Halla, nýráðinn skólastjóri, tók fyrst til máls og þar á eftir sagði Gylfi Jón, fræðslustjóri, nokkur orð um kynni sín af Gunnari og samstarf þeirra. Kristján Geirsson, formaður Foreldrafélags Heiðarskóla, handjárnaði því næst Gunnar og vakti það mikla kátínu viðstaddra. Þau Steinunn Snorradóttir afhentu honum golfgræjur merktar Heiðarskóla, fyrir hönd foreldrafélagsins og þökkuðum bæði Gunnari og Sóleyju Höllu fyrir óeigingjörn stöf sem skólastjóri og aðstoðarskólastjóri. Sóleyju Höllu var jafnframt óskað til hamingju með nýja starfið sem skólastjóri. Árni Sigfússon þakkaði Gunnari fyrir vel unnin störf í þágu íbúa Reykjanesbæjar en eins og flestum er kunnugt um hefur Gunnar lengi starfað í grunnskólum bæjarins eða frá árinu 1973. Nemendur á yngsta stigi fóru svo með vinavísu til hans og miðstigsnemendur sungu Ég er sko vinur þinn. Þau Arna Vala Hlynsdóttir og Markús Már Magnússon héldu tölu um Gunnar fyrir hönd nemenda á unglingastigi og gáfu honum polobol merktan Heiðaskóla frá 10. bekkingum. Unglingarnir framkölluðu síðan flugeldahvelli með blöðrum. Því næst voru Gunnari afhentar gjafir frá nemendum og starfsfólki skólans og starfsfólkið söng fyrir hann frumsaminn texta við undirspil Guðmundar Hermannssonar. Að lokum sungu allir kveðjustundargestir skólasöng Heiðarskóla. Megi Gunnar lengi lifa og njóta sín í þeim verkefnum sem hann mun nú taka sér fyrir hendur. Takk fyrir okkur Gunnar! Fleiri myndir má sjá í myndasafni.