Lið Heiðarskóla komið í úrslit Skólahreystis
Þau Bartosz, Eyþór, Hildur Björg og Klara Lind báru sigur úr býtum í Skólahreystiriðli 1 í gær, miðvikudaginn 20. mars. Þau unnu með 68,5 stigum en nágrannar okkar í Holtaskóla enduðu með aðeins hálfu stigi minna í 2. sæti. Í 3. sæti lenti svo lið Stóru-Vogaskóla. Riðillinn sem liðin af Suðurnesjum og úr Hafnarfirði skipa hefur ávallt verið talinn afar sterkur, ef ekki sá sterkasti og hafa Suðurnesjalið nær undantekningarlaust skipað efstu sætin.
Það er því ljóst að liðið okkar mun fá tækifæri til að verja titilinn í úrslitum í Laugardalshöll þann 8. maí. Við óskum krökkunum og þjálfaranum þeirra, henni Helenu íþróttakennara, innilega til hamingju með árangurinn. Þess má einnig geta að stuðningmenn Heiðarskólaliðsins voru valdir þeir skemmtilegustu. Ekki amalegt það. Hvað er öflugt lið án fyrirtaks stuðningsmanna?
Áfram Heiðarskóli!