Nýr körfuboltavöllur vígður
Lengi hefur verið beðið eftir að nýtt undirlag verði lagt og nýjar körfur settar upp á körfuboltavöllinn við innganginn í íþróttahúsið. Í vikunni var nýi körfuboltavöllurinn tilbúinn, mörgum nemendum til mikillar gleði. Í dag var þessi flotti völlur svo vígður í roki og rigningu en enginn lét það á sig fá. Í frímínútum söfnuðust nemendur saman í kringum völlinn og eftir að Haraldur skólastjóri hafði sagt nokkur orð afhenti Helena íþróttakennari nýjan farandbikar þeim bekk á unglingastigi sem hljóp lengst í Heiðarskólahlaupinu í síðasta mánuði. Nemendaráðið spilaði síðan stuttan körfuboltaleik, drengir á móti stúlkum og slóst Haraldur í lið með drengjunum og Bryndís Jóna með stúlkunum. Endaði leikurinn með tveggja körfu jafntefli. 6. bekkur var fyrsti bekkurinn til að eiga tíma á körfuboltavellinum, samkvæmt skipulagi og þótti þeim völlurinn vera góður.