Öskudagsfjör
Í tilefni af öskudegi var skólastarfið okkar brotið upp með ýmsu móti. Eins og venja er höfðu draugarnir, uppvakningarnir og furðufuglarnir í nemendaráði sett upp draugahús sem vakti mikla lukku. Helena og Elín íþróttakennarar og Esther danskennari héldu uppi stuðinu í íþróttasalnum með leik og dansi og í heimastofum var spilað, spjallað og leikið. Nemendur í 7.-10. bekk höfðu val um að taka þátt í spurninga- eða borðtenniskeppni, spila á spil, leika sér í Guitar Hero, horfa á vinsæla sjónvarpsþætti og svo auðvitað sýna sig í búningum og sjá aðra. Yngri nemendur skólans fóru einnig í hinar geysivinsælu búningakönnunarferðir. Klukkan 11 lauk svo öllu skipulögðu skólastarfi og örkuðu furðuverurnar okkar út í rigninguna og stefndu margar þeirra í átt að verslunum bæjarins í von um að geta fengið gotterí fyrir fagran söng.