Reglugerð um skólastarf 6.-15. apríl
Ný reglugerð hefur verið gefin út um skólahald og gildir hún fyrir tímabilið 6. - 15. apríl. Samkvæmt henni getur skólahald verið með nokkuð eðlilegum hætti en helstu breytingarnar felast í aukinni grímunotkun starfsfólks. Aftur ber okkur að takmarka aðgengi utanaðkomandi aðila að skólanum eins og kostur er.
Nemendur mæta í skólann, þriðjudaginn 6. apríl samkvæmt stundatöflu og skipulag frístundaheimilisins verður með eðlilegum hætti.
Hér er upptalning á því sem skólanum ber að fara eftir þessa daga sem reglugerðin nær til:
. Grunnskólanemendur eru undanþegnir 2 metra nálægðartakmörkun sem og grímuskyldu. Ekki skulu vera fleiri en 50 nemendur í 1.-10. bekk í hverju rými. Blöndun milli hópa innan skóla er heimil.
. 20 starfsmenn mega vera saman í rými og þeim er heimilt að fara á milli hópa. Sé starfsfólki ekki unnt að tryggja 2 metra nálægðartakmörkun sín á milli og gagnvart nemendum ber þeim að nota andlitsgrímur. Sömu reglur gilda um starfsfólk skólaþjónustu og tónlistarskóla.
. Í sameiginlegum rýmum skóla, svo sem í matsal, við innganga, í anddyri, á salerni og göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndun hópa að því gefnu að starfsfólk notist við andlitsgrímu. Framkvæmd matartíma má því vera með eðlilegum hætti.
. Viðburðir tengdir starfi eða félagslífi grunnskóla, svo sem fyrirlestrar, upplestrarkeppnir o.fl., eru óheimilar fyrir aðra en nemendur og starfsfólk.
. Foreldrar og aðstandendur ættu ekki koma inn í skólabyggingar nema nauðsyn beri til og skulu þá bera andlitsgrímur.
. Aðrir en starfsmenn sem koma inn í grunnskóla, svo sem vegna vöruflutninga skulu bera andlitsgrímur og gæta sóttvarnaráðstafana.
Við förum áfram varlega og hugum vel að hreinlæti og persónulegum sóttvörnum. Áfram verður mikilvægt fyrir alla að mæta ekki í skólann með flensulík einkenni.
Hér má sjá reglugerðina: https://www.stjornarradid.is/