Samningur milli Heiðarskóla og Keilis um speglaða kennslu í stærðfræði undirritaður
Fulltrúar Heiðarskóla og Keilis hafa undirritað samstarfssamning sem felur í sér að stærðfræðikennarar á unglingastigi í Heiðarskóla vinni kennslumyndbönd sem nýta á í speglaða kennslu í námsefni 8.-10. bekkja. Í speglaðri kennslu (flipped classroom) er innlögn kennarans og útskýringar á tilteknu efni teknar upp og geta nemendur hlustað heima á kennara fjalla um efnið eins oft og þeir vilja og þegar þeir vilja. Þannig koma nemendur undirbúnir í skólann þar sem þeir taka til við að vinna verkefni. Hlutverkunum er því í raun snúið við, þar sem heimanámið er fært inn í skólana og rödd kennarans fer með nemandanum heim. Þau Haraldur Axel Einarsson, aðstoðarskólastjóri og stærðfræðikennararnir Íris Ástþórsdóttir, Þóra Guðrún Einarsdóttir og Þórey Garðarsdóttir mynda teymið í kringum þetta verkefni í Heiðarskóla. Afrakstur vinnu þeirra verður öllum aðgengilegur á vefnum Flipp: http://rthp19.wix.com/flipp Þar hefur nú þegar verið opnað fyrir aðgang að speglaðri kennslu í náttúrufræði en það efni unnu þeir Ragnar Þór Pétursson og Þormóður Logi Björnsson.