Samstarf um vélmenni
Á síðasta ári tóku Keilir og Heiðarskóli upp samstarf á sviði forritunar með Fable vélmenni. Eru það nokkurs konar armar sem hægt er að festa ýmsa aukahluti á og þeim er síðan stýrt með forritun. Isavia og HS orka styrktu framtakið myndarlega og gerðu það mögulegt.
Heiðarskóli tók við vélmennunum á haustmánuðum og var Andri Már Þorsteinsson, starfsmaður Heiðarskóla, fenginn í það verkefni að læra á þau og annast í framhaldinu kennslu. Nemendur okkar í 9. bekk hafa fengið tækifæri til þess að vinna með vélmennin og haft bæði gagn og gaman af. Eitt skilyrðið fyrir samstarfi Keilis og Heiðarskóla var að aðrir grunnskólar á svæðinu fengju einnig að spreyta sig á þeim. Til þessa hafa nemendur í 9. bekk í Njarðvíkurskóla sótt námskeið hjá Andra Má og til stendur að hópur heimsæki okkur frá Holtaskóla á næstunni.
Föstudaginn 5. apríl komu ofangreindir samstarfsaðilar saman í Heiðarskóla, Hjálmar Árnason frá Keili og þau Ásgeir Margeirsson forstjóri HS Orku og Ásdís Gíslason kynningarstjóri ásamt Kjartani Má bæjarstjóra, Helga Arnarsyni fræðslustjóra og Haraldi Axel grunnskólafulltrúa. Fulltrúar ISAVIA sáu sér ekki fært að mæta. Var við það tilefni fylgst með nemendum vinna með vélmennin og fulltrúum styrktaraðila afhent viðurkenningarskjöl fyrir góðan stuðning.
Um Fable: https://www.shaperobotics.com/