12. apríl 2016

Skólahreystikeppni miðstigs

Þriðjudaginn 12. apríl öttu 29 nemendur í 5.-7. bekk kappi í skólahreystiþrautum Heiðarskóla. Líf og fjör var í íþróttasalnum og var mikill kraftur bæði í þátttakendum og áhorfendum. Skólamet voru slegin og hvaðeina! Vaskar stúlkur og tápmiklir drengir spreyttu sig á þrautunum. Ásdís Birta í 5.HT gerði hvorki meira né minna en 63 armbeygjur og bekkjarsystir hennar Emma gerði sér lítið fyrir og setti met í hreystigreip þegar hún hékk í 8.28 mínútur. Aron Ingi í 7.ÞG var svo sannarlega með krafta í kögglum, annað árið í röð en hann gerði 27 upphýfingar. Bartosz í 7.DG var eitilharður þegar hann gerði 23 dýfur og bætti þar með Heiðarskólametið. Þau Aron Örn í 6.ÓB og Urður í 7.DG geystust hraðast í gegnum hreystibrautina. Aron Örn fór hringinn á sléttri mínútu og Urður á 1.14. Nemendur úr Skólahreystiliði Heiðarskóla aðstoðuðu Helenu íþróttakennara við framkvæmd og skipulag keppninnar. Mikill áhugi er fyrir Skólahreysti meðal yngri nemenda skólans og ljóst að árangur Skólahreystiliða okkar undanfarin ár hefur vakið áhuga og ýtt undir metnað þeirra yngri. 

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan