5. júní 2018

Skólaslit 2018 og útskrift 10. bekkjar

Ánægjulegu skólaári var slitið á sal skólans í dag, þriðjudaginn 5. júní. Skólaslitin voru að venju þrjú, fyrir 1.-3. bekk, 4.-6. bekk, 7.-9. bekk og svo útskrift 10. bekkjar. Eftirtaldir nemendur glöddu gesti með vönduðum tónlistarflutningi á skólaslitum í 1.-9. bekk: Birna Rún 3. EA, Lína Rut og Sara Lilja 3. EA, Ásdís Bára, Ragnheiður Anna og Þórunn Anna í 6. EN, Elísabet Eva í 6. SJ og Jón Ólafur og Helgi Þór í 8. ÍÁ.

Í 1.-6. bekk var hverjum bekk afhent viðurkenningarskjal með umsögnum og hvatningarorðum starfsfólks. Í 7.-9. bekk voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í bóklegum greinum, í list- og verkgreinum og fyrir árangur í Skólahreysti og skólaíþróttum. Velunnarar skólans kostuðu einnig verðlaun til handa nemanda á þessu aldursstigi sem sýnt hefur einstaka eljusemi og þrautseigju í bóklegu námi.

Á útskrift 10. bekkjar söng Margrét Arna í 10. EP lagið Bound to You við undirspil Sigrúnar Gróu og Nikola í 10. ÞE söng og spilaði á píanó lagið Í síðasta skiptið. Þær Eygló og Þóra, umsjónarkennarar, töluðu til nemenda sinna og annarra gesta og Birgitta Rós í 10. ÞE flutti erindi fyrir hönd nemenda. Ýmsar viðurkenningar voru veittar en meðal þeirra var viðurkenningin Heiðursnemandi Heiðarskóla sem Gunnar Jónsson, fyrrverandi skólastjóri, kostar og afhendir. Heiðursnemandinn í ár er Andrea Dögg í 10. ÞE en að mati kennara og starfsmanna hefur hún verið sérstaklega jákvæð, kurteis og heiðarleg í samskiptum við nemendur og starfsfólk skólans, verið til fyrirmyndar í framkomu sinni og ávallt gert sitt besta í sínum verkefnum. Eftir að hverjum nemanda hafði verið veitt vitnisburðarskjal og rós sagði Haraldur Axel skólárinu 2017 - 2018 slitið og voru nemendur í 10. bekk þar með útskrifaðir úr grunnskóla. Að skólaslitum loknum gæddu viðstaddir sér á gómsætum veitingum sem þær Ólöf Jónsdóttir, Þórunn Sigurðardóttir, Guðbjörg Fríða Pálmarsdóttir ásamt fleirum höfðu galdrað fram af sinni alkunnu snilld.

Þeim Heiðrúnu Rós Þórðardóttur, Eyrúnu Hearn Ármannsdóttur, Irenu Sól Jónsdóttur og Ólafi Inga Hanssyni var þakkað fyrir vel unnin störf en þau hafa nú þegar eða munu hverfa til annarra starfa. Þorbjörgu R. Óskarsdóttur, skólaritara, Mörthu Ó. Jensdóttur, kennara og Maríu Arnardóttur, þroskaþjálfa var einnig þakkað fyrir samstarfið og vel unnin störf en þær munu nú ljúka sínum starfsferlum. Jóni N. Hafsteinssyni, Sólveigu Rós Jóhannesdóttur og Kristínu G.B. Jónsdóttur voru jafnframt afhentar gjafir fyrir að hafa unnið sitt 10. starfsár í Heiðarskóla.

  

Fleiri myndir má sjá í myndasafni.

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan