7. júní 2022

Skólaslit og útskrift 10. bekkinga 2022

Skólaárinu 2021 – 2022 var slitið föstudaginn 1. júní. Skólaslitin voru að venju þrískipt, fyrir 1.-3. bekk, 4.-6. bekk, 7.-9. bekk og svo útskrift 10. bekkjar. 

Skólaslit:

Í 1. - 9 . bekk las fulltrúi hvers bekkjar upp bekkjarskýrslu þar sem m.a. komu fram upplýsingar um það sem þeim fannst merkilegast á skólaárinu, hvað þau lærðu mest, hvað var skemmtilegast og hvað það var sem þau muni aldrei gleyma. Þetta tókst mjög vel og var gaman að heyra hvernig nemendur okkur voru að upplifa skólaárið.

 

Ljóðasamkeppni Heiðarskóla fór fram á vordögum og fer keppnin fram á öllum stigum. Samkvæmt venju voru afhent verðlaun fyrir sigurljóðið á skólaslitum. Á yngsta stigi var það Valgerður Ósk Þorvaldsdóttir nemandi í 4. bekk fékk ljóðaverðlaunin fyrir ljóð sitt Friður og á elsta stigi var það Ragnheiður Anna Jónsdóttir, nemandi i 10. bekk sem fékk verðlaunin en ljóðið hennar heitir Tíminn er komin. Að þessu sinni bárust ekki ljóð frá miðstigi í keppnina en mörg ljóð bárust frá yngsta og elsta stig sem er ánægjulegt og gefur skapandi nemendum tækifæri til að sýna hvað í þeim býr.

 

Á hverju ári er haldið skákmót Heiðarskóla þar sem nemendur úr 4. – 10. bekk geta tekið þátt og er skákmeistari skólans krýndur. Í ár var það Andrés Haraldsson sem fékk titilinn skákmeistari Heiðarskóla 2021 - 2022.

 

Í 8. bekk voru veitt verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í list- og verkgreinum og í 9. bekk kosta velunnarar skólans verðlaun til handa nemanda sem sýnt hefur einstaka eljusemi og þrautseigju í bóklegu námi.

 

Tónlistaratriði voru á skólaslitum og útskrift 10. bekkjar og var það Sigrún Gróa Magnúsdóttir tónlistarkennari sem hélt utan um þann lið og þökkum við henni kærlega fyrir.

Útskrift 10. bekkjar:

Á útskrift 10. bekkjar spiluðu Ragnheiður Anna Jónsdóttir og Viktoría Erla Magnúsdóttir samspil á píanó og klarinett, Ragnheiður Anna spilaði einleik á píanó, Elísabet Eva  Erlingsdóttir spilaði á gítar og að lokum spilaði Andrés Haraldsson frumsamið verk á píanó.  Jón Logi Víðisson formaður nemendaráðs flutti erindi fyrir hönd nemenda og umsjónarkennarar hópsins þær Eygló Pétursdóttir og Þóra Guðrún Einarsdóttir voru með skemmtileg orð til nemenda sinna og gesta.  Ýmsar viðurkenningar voru veittar en meðal þeirra var viðurkenningin Heiðursnemandi Heiðarskóla sem Gunnar Jónsson, fyrrverandi skólastjóri, kostar. Í ár var það Jón Logi Víðisson sem hlaut þessi verðlaun en að mati kennara og starfsmanna hefur hann verið sérstaklega jákvæður, kurteis og heiðarlegur í samskiptum við nemendur og starfsfólk skólans, verið til fyrirmyndar í framkomu sinni og ávallt gert sitt besta í sínum verkefnum.

 

Við útskrift fá nemendur útskriftartrefla um leið og þeir taka við vitnisburðarskjölum sínum. Treflarnir eru gjöf frá skólanum og foreldrafélagi Heiðarskóla. Að því loknu var skóla slitið af Bryndísi Jónu skólastjóra og árgangur 2006 þar með útskrifaður úr grunnskóla.

Að útskrift lokinni var kaffisamsæti með nemendum, foreldrum/forráðamönnum þeirra og starfsfólki skólans. Sóley Halldórsdóttir nemandi í 10. bekk hafði sett saman myndband sem spannaði síðasta ár þeirra í Heiðarskóla og var það spilað á meðan kaffinu stóð. Þær Ólöf Jónsdóttir, Þórunn Sigurðardóttir heimilisfræðikennarar og Guðbjörg Fríða Pálmarsdóttir stoðkennari sáu um veitingarnar. Allar uppskriftir má finna á bloggsíðu heimilisfræðikennara Heiðarskóla - https://eldabaka.wordpress.com/2022/06/03/skolaslit/?fbclid=IwAR1oWH_3m2GtNoH8Mu0OGX0mBNIgg_onJQ53T7dcTPJXPTl_p3bA79Djc7A

Svo var það Margrét Eðvaldsdóttir, starfsmaður skóla, sem að venju sá um allar skreytingar á þessum hátíðisdegi. 

Það er venja á starfsdögum að vori að kveðja þá starfsmenn sem hætta hjá okkur og veita þeim gjafir sem náð hafa 10 ára starfsaldri í Heiðarskóla. Þannig vill til þetta vorið að við erum að kveðja ansi stóran hóp af góðum samstarfsfélögum.

Á skólaárinu hættu þær Ásta Kristín Guðmundsdóttir kennari, Inga Margrét Þorsteinsdóttir stuðningsfulltrúi og Agnes Ósk Ómarsdóttir kennari. Að sumarfríi loknu munu þau Laufey Ósk Andrésdóttir kennari, Nína Karen Víðisdóttir og Ari Steinn Guðmundsson stuðningsfulltrúar hætta hjá okkur. Svo kvöddum við hvorki meira né minna en 5 starfsmenn sem ljúka sínum starfsferli en það eru þau Margrét Helga Jóhannsdóttir stuðningsfulltrúi, Guðmundur Ingvar Hinriksson húsvörður og kennararnir Sigurbjörg Guðmundsdóttir, Guðmundur Hermannsson og Ingibjörg Pálmadóttir. Þau þrjú síðast nefndu hafa starfað í Heiðarskóla frá upphafi. Sigurbjörg á 32 ára kennsluferil, Guðmundur 42 ára og Ingibjörg yfir 48 ára kennsluferil.

Öllu þessu frábæra fólki höfum við þökkum við fyrir þeirra framlag til skólasamfélagsins okkar, ánægjulegt samstarf og einstaklega góð viðkynni. Hebu Maren Sigurpálsdóttur, þroskaþjálfa, var einnig veitt gjöf fyrir 10 ára starfsafmæli.

 

Myndir af skólaslitum má finna hér í myndasafni á heimasíðunni. 

  • Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ
  • Mentor
  • Reykjanesbær
  • Uppbyggingarstefnan