Skólaþing Heiðarskóla - Þakkir til skólasamfélagsins!
Skólaþingið okkar, Með nesti og nýja skó - Horft til framtíðar, var haldið laugardaginn sl. Sóley Halla, skólastjóri, setti þingið með erindi um breyttar áherslur í skólastarfi og mikilvægi þess að við undirbúum nemendum okkur fyrir óráðna framtíð. Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra ávarpaði gesti og opnaði formlega stærðfræðisvæði vefsíðunnar www.vendikennsla.is með hjálp Hjálmars Árnasonar, framkvæmdastjóra Keilis. Þar eru kennslumyndbönd þeirra Írisar, Þóru Guðrúnar og Þóreyjar stærðfræðikennara vistuð og eru nú orðin öllum aðgengileg. Fjögur erindi voru síðan flutt af kennurum skólans. Þau fjölluðu um nýja kennsluhætti, námsmat, uppbyggingarstefnuna og læsi í víðum skilningi. Skólamatur bauð upp á kjötsúpu í hádeginu og það voru því saddir og sælir gestir sem hlýddu á þau Árna Geir, Pál Orra, Stellu Björk og Snædísi Glóð kynna niðurstöður nemendaþings 8.-10. bekkja sem fram fór um mánðamótin síðustu. Loks voru málin rædd á málstofum þar sem foreldrum og öðrum áhugasömum gafst tækifæri til að koma skoðunum sínum á nokkrum þáttum skólastafsins á framfæri. Við kunnum gestum okkar bestu þakkir fyrir virka þátttöku og ánægjulega samveru. Þeir gáfu okkur góðar ábendingar um ýmislegt sem betur má fara en einnig rósir í hnappagat skólans. Við viljum einnig þakka Skólamat fyrir saðsama og góða kjötsúpu.