Skólslit og útskrift 10. bekkinga
Skólaárinu 2020 – 2021 var slitið þriðjudaginn 8. júní. Skólaslitin voru að venju þrískipt, fyrir 1.-3. bekk, 4.-6. bekk, 7.-9. bekk og svo útskrift 10. bekkjar.
Í 1. - 9 . bekk var hverjum árgangi eða bekk afhent viðurkenningarskjal með umsögnum. Sú nýbreytni var á þessum skólaslitum að fulltrúi hvers bekkjar las upp bekkjarskýrslu þar sem m.a. komu fram upplýsingar um það sem þeim fannst merkilegast á skólaárinu, hvað þau lærðu mest, hvað var skemmtilegast og hvað það var sem þau muni aldrei gleyma. Þetta tókst mjög vel og var gaman að heyra hvernig nemendur okkur voru að upplifa skólaárið.
Ljóðasamkeppni Heiðarskóla fór fram á vordögum og fer keppnin fram á öllum stigum. Samkvæmt venju voru afhent verðlaun fyrir sigurljóðið á skólaslitum. Á yngsta stigi var það Agla Fanney Aradóttir nemandi í 2. bekk fékk ljóðaverðlaunin fyrir ljóð sitt Í Heiðarskóla er best. Á miðstigi hlaut Brynja Arnarsdóttir í 7. bekk verðlaunin með ljóðið Segðu mér það og á elsta stigi var það Þórunn Anna Einarsdóttir sem fékk verðlaunin en ljóðið hennar heitir Opnaðu augun. Mörg ljóð bárust í keppnina sem sýnir svo sannarlega sköpunarkraftinn sem býr í nemendum okkar.
Í 8. bekk voru veitt verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í list- og verkgreinum og í 9. bekk kosta velunnarar skólans verðlaun til handa nemanda sem sýnt hefur einstaka eljusemi og þrautseigju í bóklegu námi.
Á útskrift 10. bekkjar spiluðu Óli Viðar Sigurbjörnsson og Ívar Snorri Jónsson á píanó. Kolbrún Saga Þórmundsdóttir formaður nemendaráðs flutti erindi fyrir hönd nemenda og umsjónarkennarar hópsins þau Daníella, Esther og Hjálmar voru með skemmtileg orð til nemenda sinna og gesta. Ýmsar viðurkenningar voru veittar en meðal þeirra var viðurkenningin Heiðursnemandi Heiðarskóla. Gunnar Jónsson, fyrrverandi skólastjóri, kostar og afhendir þessi verðlaun. Í ár var það Jana Falsdóttir sem hlaut þessi verðlaun en að mati kennara og starfsmanna hefur hún verið sérstaklega jákvæð, kurteis og heiðarleg í samskiptum við nemendur og starfsfólk skólans, verið til fyrirmyndar í framkomu sinni og ávallt gert sitt besta í sínum verkefnum.
Við útskrift fá nemendur útskriftartrefla um leið og þeir taka við vitnisburðarskjölum sínum. Að því loknu var skóla slitið af Bryndísi Jónu skólastjóra og árgangur 2005 þar með útskrifaður úr grunnskóla.
Að útskrift lokinni var hátíðarkvöldverður sem foreldrar útskriftarnemenda sáu um. Þetta var hátíðleg stund með dýrindis mat og eftirrétti. Nemendur fengu tilnefningar eins og t.d. hlátur skólans, hæfileiki skólans og fleira. Einnig létu nemendur ljós sitt skína í myndabás og voru teknar ansi margar myndir.
Á skólaslitum eða útskrift 10. bekkjar hefur venjan verið að kveðja þá starfsmenn sem hætta hjá okkur og veita þeim gjafir sem náð hafa 10 ára starfsaldri í Heiðarskóla. Eins og í fyrra mun þetta fara fram á starfsdögunum sem taka við að skólaslitadegi loknum. Þá munum við því miður kveðja þau Hjálmar Benónýsson, Helenu Sævarsdóttur og Salbjörgu Rögnu Sævarsdóttur sem öll munum róa á önnur mið. Margrét Jónsdóttir, myndlistarkennari, mun í sumar ljúka sínum kennsluferli sem spannar tæp 30 ár og fær hún þakkir fyrir vel unnin störf.
Myndir af skólaslitum má finna hér í myndasafni á heimasíðunni.