Stærðfræðingar fengu óvænta gjöf frá toppliði ensku úrvalsdeildarinnar
Lítill hópur stráka úr 6. bekk hefur undanfarið lært stærðfræði undir stjórn Eysteins Haukssonar. Í fyrsta tíma ákváðu drengirnir, sem allir eru miklir fótboltaáhugamenn, í samráði við kennarann að þeir ætluðu sér á næstu mánuðum að vera "Leicester stærðfræðinnar" og koma öllum á óvart með miklum dugnaði og framförum. Námið hófst svo með þeim hætti að strákarnir keppa í hverjum tíma sem Leicester við annað félag úr ensku úrvalsdeildinni. Þeir fá saman ákveðin verkefni og tímamörk til að klára þau í sameiningu. Ef þeir eru allir með rétt svar þegar tíminn er útrunninn, þá fer mark á töfluna fyrir Leicester en ef einhver er með villu, þá skráist það sem mark á hitt liðið. Það sama gerist ef fyrirmyndar hegðun í tímanum er ábótavant. Leiknum lýkur svo þegar bjallan hringir í lok tíma og þá eru mörk hvors liðs lögð saman. Það reynir því á samvinnu strákanna, þátttöku allra liðsmanna, dugnað og einbeitingu í leit að sigrum, ekkert ósvipað og hjá liði Leicester í enska boltanum sem svo sannarlega eru frábærar fyrirmyndir þessa dagana.
Það kom strákunum svo heldur betur í opna skjöldu þegar Eysteinn mætti í tíma fyrir stuttu með umslag í hönd og dró upp úr því stóran Leicester City fána áritaðan af öllum leikmönnum félagsins. Eysteinn hafði þá sent bréf til Englands, þar sem hann sagði frá verkefninu og að Leicester City og árangur þeirra væri drengjunum í Heiðarskóla hvatning til árangurs. Fulltrúa félagsins, Louise McConnell, þótti greinilega mikið til koma og útvegaði fánann og sendi hann til baka, ásamt hvatningarbréfi þar sem hún lýsti yfir ánægju með að félag sitt væri strákunum innblástur til framfara í náminu. Fáninn hangir nú hátt á lofti í stofu strákanna og er þeim mikil hvatning til að leggja sig alla fram. "Keep up the good work!" stóð meðal annars í bréfinu.
Einnig óskaði hún eftir mynd af strákunum með fánann, sem hún vonaðist til að geta birt í leikskrá félagsins fyrir heimaleik í nánustu framtíð, sem var að sjálfsögðu auðsótt.
Strákunum hefur gengið ágætlega það sem af er "leiktímabilinu" og meðal annars lagt Liverpool, Norwich, Arsenal, Everton og Watford að velli ásamt því að gera jafntefli við Tottenham. Þá lögðu þeir Real Madrid sannfærandi í vináttuleik. Eini tapleikurinn hingað til var gegn Manchester United, enda ekki við öðru að búast, þar var einfaldlega við algjört ofurefli að etja, að sögn Eysteins.
Skýring með mynd: Lið Leicester stærðfræðinnar með fánann góða eftir 9-4 sigur á Norwich City, frá vinstri: Kári Freyr Þorsteinsson, Tómas Ingi Magnússon, Aron Örn Hákonarson, Valur Þór Hákonarson og Stefán Jón Friðriksson