Sumargleði á árshátíð Heiðarskóla 2021
Árshátíðirnar okkar þrjár fóru fram föstudaginn 19. mars. Þema þeirra þetta árið var „Sumar og sól“. Atriðin voru mjög fjölbreytt og virkilega gaman að sjá þátttöku nemenda.
Á árshátíð 1. - 4. bekkjar voru söngvar sungnir, vísur kveðnar og forskólalög spiluð á flautur. 1. bekkingar þreyttu frumraun sína á sviði og stóðust þá áskorun með glæsibrag, sungu þrjú lög um sumarið. 2. bekkur sýndi hvað í honum býr með kröftugum söng og vönduðu forskólaflautuspili undir stjórn Sigrúnar Gróu. Þriðji bekkur sýndi frábært leikrit með söngívafi. 4. bekkur kom fram í sitt hvoru lagi. 4. GS fór með lesinn texta og söng Sumargleði. 4 KB fór með lesin kvæði og sungu Í kvöld er gigg. Kynnar á árshátíð yngsta stigs voru þau Ásgrímur Bragi og Eva Dís í 4. bekk. Glæsileg atriði og kom öllum í sumarskap.
Á miðstigi hélt sumarfjörið áfram og hóf 5. bekkur árshátíðina með frumsamda söngleikinn Sumarhátíð í skrúðgarðinum og gerði það með miklum glæsibrag. 6. bekkirnir komu fram í sitt hvoru lagi, 6. KSK með frumsamið leikrit, Sumarspuna og 6. AE söng sumarlag úr Frozen. Nemendur í 7. bekk komu einnig fram í sitt hvoru lagi og sýndu sínar allra bestu hliðar í leik og söng. 7. ÁG var með söngleik um sumarið á ströndinni og 7. SB var einnig með söngleik sem var um síbreytilega veðrið á Íslandi. Kynnar á miðstigs árshátíðinni voru þau Emilía Sigrún og Daði í 7. bekk. Enn sýndu nemendur hvað í þeim býr og var sköpunarkrafturinn mikill.
Eftir hádegi var svo komið að unglingunum. Var þá leikritið Mamma Mia frumsýnt. Leikstjórar voru þau Guðný Kristjánsdóttir, Daníella Hólm Gísladóttir, Hjálmar Benónýsson og Esther Níelsdóttir og eiga þau mikið hrós skilið. Það er skemmst frá því að segja að unglingarnir stóðu sig frábærlega vel og vakti leikritið og frammistaða þeirra mikla lukku. Stóran part af leikmyndinni var unnin af nemendum í leikmyndavali með aðstoð kennara síns Guðbjörgu Lilju. Fleiri sýningar eru fyrirhugaðar og verða auglýstar sérstaklega en fjöldatakmörk fullorðinna koma því miður í veg fyrir að hægt verði að hafa alveg opnar sýningar eins og venja er.
Nemendur okkar voru stjörnur dagsins, eins og þau eru reyndar alla skóladaga, og stóðu sig svo vel. Við söknuðum þess þó að fá ekki gesti í hús en við vonum að streymið á árshátíðir yngsta og miðstigs hafi lukkast vel og allir haft gaman af. Skólinn og foreldrafélagið lögðust á eitt að láta það verða að veruleika í samstarfi við Hilmar Braga á Víkurfréttum.
Fleiri myndir má sjá í myndasafni.